Varðandi ljóðið í síðustu færslu: Þannig er að vefritið Starafugl óskaði eftir ljóðum úr öllum áttum til að gefa út á bók, sem heitir Viljaverk í Palestínu og var ætlað að vekja athygli á neyðarsöfnun félagsins Ísland-Palestína. Gott framtak sem gaman hefði verið að taka þátt í, en vegna annríkis, netleysis og einhverrar vanmáttarkenndar gagnvart verkefninu féll ég á tíma og náði ekki að senda neitt inn. Þannig að þetta ljóð er hálfgerður bastarður. En ég vil líka benda á neyðarsöfnunina:
Reikningur: 0542-26-6990
Kt. 520188-1349
Skýring greiðslu:
Neyðaraðstoð við Palestínu
Wednesday, 30 July 2014
Sunday, 27 July 2014
Göng til Gaza
Ég hafði verið að brjóta heilann um afstöðuljóðlist, um hverju hún áorkar, hvort hún áorkar nokkru yfirhöfuð og þá hvernig. Vegna Palestínu, aftur. Svörin virðast yfirleitt þau sömu: litlu, varla og góð spurning. Ég held að minnsta kosti að fullyrða megi að ákveðin tegund hennar virki ekki, sé strand, ef ekki dauð, nema þegar hún sé eftir fólkið sem verður fyrir misréttinu, í þessu tilviki Palestínumenn. En hvað ber að gera? Og hvað er afstaða? Ef marka má skáldin virðist það vera eitthvað á borð við „morð eru vond“. Ég er ekki með svör en ég held að í ljóðlist þurfi að láta tungumálið sjálft einhvern veginn líkja eftir því sem ljóðið er 'um', að form sé innihald og innihald form, án þess að hafa nákvæma útlistun á því, ekki ætla ég að segja fólki hvernig það eigi að yrkja, né er þessum texta heldur ætlað að vera dæmi um slíkt, en hvernig getur tungumálið líkt eftir svona hryllingi? Þarna komum við kannski aftur að þessu með að „segja hið ósegjanlega“. Markmiðið er kannski ekki endilega að ljóðin sjálf séu eins og heimagerðar eldflaugar, heldur frekar að Hamas leynist bakvið sérhvert orð, ef það meikar sens. Þetta allt hélt fyrir mér vöku. Ég ætlaði í sturtu en þá sprautaðist bara blóð úr sturtuhausnum. Ég ætlaði að fá mér morgunmat en þá var kornflexpakkinn fullur af muldum höfuðskeljum. Ég fór út en þá var risinn múr beint fyrir framan húsið mitt, örugglega þúsund metra hár. Loftveginn komu steikingasveimarar. Þetta síðasta var vísun í afstöðuljóð sem virkar. En þá las ég frétt um að Ísraelsher hefði uppgötvað flókið kerfi neðanjarðarganga undir Gaza. Samkvæmt heimildum teygja þau anga sína alla leið til Svalbarða. Vel grafið, gamla moldvarpa! Þetta síðasta var Marx, að tala í gegnum Sigfús. Ég er farinn að grafa. Ég ætla að grafa mér göng til Gaza. Ég gref og gref. Ég tek með mér eitthvað af orðum innvortis, ég veit ekki hve mikinn tíma það mun taka, en vona að þegar ég rek hausinn upp úr jörðinni í Zaytoun eða Toffah, í Rafah eða Khan Younis, eða upp úr gólfinu í Al-Aqsa sjúkrahúsinu, eða rústum einhvers heimilis eða skóla, þá muni ég hver þau voru.
Tuesday, 8 July 2014
Sternberg: Úr Þunglyndisljóðum
allt
verður bara verra
maður
getur leyft sér
að
vona
en
allt
verður bara verra
sama
hvað ég geri
veldur
útkoman
vonbrigðum
***
þetta er bratti
að klifra upp í mót
krefst mikillar áreynslu
og allir sem reyna
hrapa
eftir svolitla stund
niður
***
***
ég veit ekki
hvort aðrir
vita
hvenær
afturförin hófst
eins og steinn í skónum
bara að ég ætti
skó sem rúmuðu stein
það eru stór
göt í öllu
***
það er engin leið að segja
hversu
lengi
þetta
kemur
til
með að vara
ég
get bara fullyrt
að
það mun ekki skána
***
þegar við ekki erum
jörðuð hvort í annars örmum
stöndum við alveg kyrr
við hlið hvors annars
líkami minn er duftker
líkami þinn er duftker
skiljanlega eigum við ekki mök
***
hvernig
hnignun
hvers og eins
mun þróast
má lesa
í andlitinu
meira og meira
sinnuleysi í svipnum
þannig
að færri og færri
athafnir
eiga sér stað
***
***
ég reyni
að læra eitthvað nýtt
en það eina sem gerist
er að ég uppgötva
hve mikið
ég misskildi í gær
***
ég tala ekki
eins og þú lest mig
ég tala hægt
og þegar einhver
spyr mig
um eitthvað
svara ég bara
með einsatkvæðisorðum
***
við verðum
lélegri og lélegri
í öllu
færri og færri
geta munað
betri tíð
maður gæti haldið
að það gæti líka talist
af hinu góða
ekki sífellt
að hugsa um
að allt var betra áður fyrr
en það er alltaf
einhver sem grætur
og það minnir mann á
að það er sorglegt
***
allt verður
meira og meira virði
en
virðið sem það eykst að
verður
minna og minna virði
***
***
enginn heldur bókhald
enginn úthlutar nöfnum
enginn ómakar sig
við að greina
***
***
Að kalla þessa tíma
erfiða
gerir það léttara
því
maður hugsar
að það vari ekki að eilífu
að það sé ekki
manns eigin sök
Subscribe to:
Posts (Atom)