Nýjar setningar
Friday, 1 September 2017
Lissabon sumarið 2017
Ykkur finnst túrisminn kannski slæmur í Reykjavík, en ég get lofað að hann er verri í Lissabon. Eftir kreppuna (sem var ekki löndunum á jaðri Evrópu að kenna sama hvað hver segir) hefur Portúgal orðið háðara túrisma en áður, ásamt því að margir ferðamenn sem áður hefðu farið til Marokkó, Túnis eða Alsírs flykkjast nú til litla landsins yst á Íberíuskaga til að upplifa þar einhvers konar "exótík" sem þeim finnst sambærileg við Norður-Afríku en eiga síður á hættu að vera drepnir í hryðjuverkaárás. En munurinn á borgunum tveimur er að Reykjavík var frekar ömurleg fyrir, grá, niðurdrepandi og svo takmörkuð af borg að vera, að minnsta kosti síðan ég flutti þangað fyrst í byrjun aldarinnar. Lissabon, hinsvegar, hafði og hefur enn upp á ansi margt að bjóða. Nú er ferðamannaiðnaðurinn að plægja sig í gegnum gamalgróna borgarhluta og setja lífsmynstur íbúanna þar úr skorðum. Breytingin síðan ég kom þangað fyrst fyrir sjö árum er mjög áberandi.
Hvað um það. Af því að ég veit að margir Íslendingar hafa sótt Lissabon heim og að þeim á eftir að fjölga, þá datt mér í hug að taka saman fáein atriði, aðallega varðandi mat og söfn, sem gætu reynst gagnleg, til að hafa í huga í ferðinni í þeirri von að þau stuðli að betri upplifun fyrir alla, bæði gesti og heimamenn.
Matur:
Á skömmum tíma hefur sprottið upp sægur af dýrum og flottum veitingastöðum. Eins og alls staðar þar sem túrismasprengja springur er erfitt að fylgjast með þeirri senu, hafa yfirsýn. Sjálfsagt eru einhverjir af þessum nýju, fínu stöðum góðir, ég þekki það ekki.
En ég mæli frekar með að prófa fábrotna, hversdagslega veitingastaði sem kallast tascas, þar sem serveraður er venjulegur portúgalskur heimilismatur fyrir lítinn pening. Til dæmis alls kyns hrísgrjónaréttir þar sem uppistaðan getur verið túnfiskur, kjúklingur, kolkrabbi og ýmislegt fleira. Eða caldo verde, sem er hin dæmigerða grænmetissúpa, holl, góð og ódýr. Eða ýmsir steiktir smáréttir, snarl í rauninni, sem sameiginlega kallast salgados, til dæmis pasteis de bacalhau (fiskibollur úr þorski) eða rissois (rækjugóðgæti). Eða torrada, sem er tæknilega séð bara ristað brauð með smjöri, en það segir bara hálfa söguna því þetta er stór sneið af almennilegu brauði, ekki einhverju samlokubrauði úr Bónus, og vel tilreidd, vel ristuð og með hæfilega miklu bræddu smjöri. Eða tosta mista, sem er í raun bara grilluð samloka með osti og skinku, en aftur er þar bara hálf sagan sögð.
Ef mann langar í skyndibita þá mæli ég - frekar en að skipta við McDonalds eða einhverja ámóta viðbjóðslega bandaríska keðju - með því að skjótast inn á næsta venjulega "kaffihús", næsta tasca, og panta þar dæmigerða steikarsamloku, annað hvort bifana (svínakjöt) eða prego (nautakjöt), sem kostar kannski tvær evrur og fimmtíu. Jafnvel salla í sig einum imperial með, þótt portúgalskur bjór þyki almennt ekki upp á marga fiska (reyndar er handverksölið líka komið hingað). En persónulega finnst mér nú hálf ankannalegt að koma hingað til að fá sér bjór. Þetta er vínland. Það er hvort eð er hægt að drekka bjór og borða pítsur alls staðar - hví þá að koma hingað til þess?
Margir kannast við pasteis de nata, litlu gulu kökurnar sem eru orðnar álíka mikil klisja og íslenski harðfiskurinn. En málið með þessar kökur er að þær eru svo fullar af eggjum - eins og reyndar flest portúgalskt bakkelsi - að þær seðja hungrið furðu lengi og ættu ekki að kosta nema svona 90 sent eða eina evru.
Allt ofantalið er hlægilega ódýrt, eða á að vera það, og á svona löguðu er hægt að komast af ef maður er knappur með klinkið, allavega í svolítinn tíma.
Reynið að fara á staði þar sem kaffibollinn (espressó) kostar ekki nema 60 til 65 sent. Það er eðlilega verðið og kaffið er afbragðs gott. Í gegnum tengsl við gömlu nýlendurnar hafa portúgalskir kaffiframleiðendur þróað frábærar blöndur, svolítið af sterka bragðinu frá Angóla, svolítið af sæta bragðinu frá Tímor og svo framvegis. Almennt eru kaffi, ólífuolía og vín héðan alveg fyrsta flokks.
Ávextirnir geta verið alveg guðdómlegir. Engin furða að arabíska orðið yfir appelsínu er náskylt landaheitinu Portúgal.
Og að sjálfsögðu á maður að borða fisk. Ekki láta eins og engilsaxneskir villimenn sem éta bara steikur og hamborgara. Prófið einhverjar af þeim skrilljón saltfiskuppskriftum sem til eru í þessu landi. Troðið í ykkur saltfiski, eftir því sem mér skilst er hvort eð er auðveldara að kaupa þorsk frá til dæmis Grindavík í Lissabon heldur en í Grindavík. Og hér hjá mestu fiskinnflutningsþjóð Evrópu er hann í góðum höndum, hjá fólki sem kann í alvöru að elda hann. Hvernig haldið þið að nokkur kúltúr geti orðið til í kringum þessa afurð ef hún er öll bara flutt út jafnharðan og hún veiðist? Borðið ferskar sardínur, lærið kúnstina við að fjarlægja roðið og ná kjötinu af beinunum án þess að kremja það, ekki flaska á að setja sardínurnar ofan á brauðið eina af annari og borða svo brauðið síðast, gegnsósa af sardínufitu. Og ekki bíða of lengi með það því Evrópusambandið er að hóta að leggja bann við sardínuveiðum. Ekki vera feimin við að snæða sem flestar furðuskepnur úr hafinu, ef þær eru ferskar, og skolið þeim niður með vinho verde, "græna" víninu. Ég skal mæla með að minnsta kosti einum stað til þess arna: Barcabela heitir hann, uppi á Avenida Almirante Reis, nálægt Intendente.
Í sumar tók ég eftir að í miðborginni, í hverfunum Baixa, Chiado og víðar, eru komnar einhverjar glansbúðir sem selja túnfisk, sardínur og annað sjávarfang í dósum. Nú er portúgalskur dósafiskur vissulega almennt mjög góður, margfalt, margfalt betri en Ora-ruslið sem íslendingar virðast gera sér að góðu. En staðreyndin er samt sú að í Portúgal er hægt að fara út í næstu kjörbúð og kaupa svona dósavöru sem er alveg jafn góð og í glansbúðunum en miklu ódýrari, þótt umbúðirnar séu ef til vill ekki jafn fínar.
Söfn:
Jarðfræðisafnið í hverfinu Princípe Real er frábært. Safnið sjálft er líka áhugavert sögulega séð, að því leyti að það er eins og söfn voru á 19. öld.
Museu do Aljube er nýtt safn og - að mér skilst - það fyrsta í landinu sem er helgað einræðistímanum (fyrir þá sem ekki vita var Portúgal í klóm fasismans næstum hálfa 20. öldina). Sjálf byggingin, Aljube, var áratugum saman notuð til að geyma pólitíska fanga. Safnið sjálft er kannski dálítið ruglingslega upp sett, sérstaklega ef maður er ekki kunnugur þessari sögu, en samt sem áður er þetta saga sem allir ættu að kynna sér.
Museu do Oriente. Flennistórt og metnaðarfullt safn úti í Alcântara, helgað menningu Austurlanda fjær, í tilefni af mikilli nærveru Portúgala í Asíu á nýlendutímanum. Tvímælalaust eitt besta safnið í borginni. Frítt inn á föstudagskvöldum eftir kl. 18.
Museu Calouste Gulbenkian er án vafa besta listasafn í borginni, jafnvel í öllu landinu. Byggingin sjálf er líka með þeim fallegri og umhverfis það er stór og yndislegur lystigarður, öllum opinn, þar sem gott er að slappa af í góða veðrinu. Ekki klikka á að fara í Gulbenkian. Frítt inn á sunnudögum eftir kl. 14.
Í síðustu árum hefur listagalleríum fjölgað talsvert. Ég myndi til dæmis líta við í einu litlu galleríi sem heitir Mandragoa, í hverfinu Santos.
Skammt frá Mandragoa, í hverfinu São Bento, er Atelier-Museu Júlio Pomar, nefnt í höfuðið á samnefndum listamanni sem er hátt skrifaður í Portúgal en lítt þekktur utan landsteinanna. Fallegt, lítið safn (kannski af svipaðri stærð og Ásmundarsafn) sem er ekki á allra vitorði.
Rétt hjá Largo do Rato, við Jardim das Amoreiras fyrir aftan 18. aldar vatnsþróna er safn helgað listakonunni Vieira da Silva, þeim portúgalska myndlistarmanni sem notið hefur mestrar alþjóðlegrar velgengni hingað til (hugsanlega fyrir utan Paulu Rego). Mjög fínt safn og vel þess virði að heimsækja.
Úti í hverfinu Belém, þar sem er allt krökkt af söfnum og minnisvörðum, er nú búið að opna nýtt nýlistasafn sem heitir MAAT. Mér finnst ekki ennþá liggja fyrir hverju það bætir við, eða hvað það gerir sem Centro Cultural de Belém eða CCB, risastór menningarmiðstöð sem er þarna rétt hjá, gæti ekki alveg eins gert. Kannski er þetta dæmi um þann gamalkunna tendens hjá stjórnmálamönnum að vilja alltaf byggja ný hús, eyða peningunum í steypu, frekar en að nota þá bara til að gera góðar sýningar í því húsnæði sem fyrir er. Eða kannski var ákveðið að byggja þetta í von um "Bilbao-áhrif" eins og sumir kalla það, með vísun í Guggenheim-safnið sem Frank Gehry hannaði fyrir Bilbao á Spáni og margfaldaði ferðamannastrauminn til þeirrar borgar.
Í öllu falli er alltaf hægt að bregða sér á Rafmagnssafnið, gamalt orkuver sem var breytt í ágætt iðnaðar- eða tæknisafn og er hluti af MAAT, sem þýðir að myndlist er líka til sýnis þar. Í evrópsku skuldakreppunni, þegar Evrópusambandið neyddi PIGS-ríkin svokölluðu til að einkavæða sem mest, seldi portúgalska ríkið Kínverjum hlut sinn í opinbera orkufyrirtækinu. Ef þú, lesandi góður, leggur leið þína á þetta safn þá þarf þig ekki að undra ef það vill svo til að þar sé stór sýning einhvers kínversks listamanns ...
Það er frítt inn á öll söfn á vegum hins opinbera á sunnudögum til kl. 14. Þetta gildir hinsvegar ekki um sjálfstæð söfn, t.d. Gulbenkian. Það borgar sig alltaf að gúggla hvert það safn sem mann langar að heimsækja til að ganga úr skugga um þetta atriði.
Annað:
Lítið við í litlu bókabúðinni Fabula Urbis, hjá dómkirkjunni Sé. Það er búð sem sérhæfir sig í bókum sem tengjast Lissabon eða Portúgal á einhvern hátt og hefur tekist að safna saman ýmsum áhugaverðum titlum, líka á ensku, frönsku, þýsku, spænsku og ítölsku. Fljótt fljótt, áður en hún fer á hausinn og þarf að víkja fyrir minjagripabúð.
Svo eru auðvitað ýmsir aðrir staðir sem ég hef mætur á, litlir staðir, jafnvel staðir þar sem fólk með alls kyns meiningar kemur saman. En það er ekki séns að ég kjafti frá þeim á einhverri bloggsíðu.
Tuesday, 1 March 2016
Monday, 19 October 2015
Ekkert tekur enda
Kæru lesendur, ég kynni með stolti nýju ljóðabókina Ekkert tekur enda. Útgefandi er hið splunkunýja grasrótarforlag Deigma.
Bókin er nú fáanleg í forsölu á kr. 2500 og eru sendingarkostnaður og rafbók (.epub eða .pdf) innifalin. Vinsamlegast sendið einfaldlega tölvupóst á kari.pall.oskarsson@gmail.com til að panta eintak, og við komum því til ykkar strax að prentun lokinni.
Kynningartexti eftir Olaf Lilian (promotional text - English version below):
Kynningartexti eftir Olaf Lilian (promotional text - English version below):
Titill nýjustu
ljóðabókar Kára Páls Óskarssonar er ergjandi að sama skapi og hann vekur innsæi
okkar. Við hrópum með honum: Ekkert tekur
enda. Allt heldur áfram, orsakasambönd og leiðingar skilja eftir sig óljós
spor í öllu sem þau koma nálægt, hverfa aldrei alveg, eins og stríðið í
Afganistan, hvað svo sem herská ríkisstjórnin kýs að fullyrða framan í
hungraðar myndavélar. Huggandi popplagið sem lekur úr kreditlista
Hollywood-pillu er bara gervilausn. Orð flýja af blaðsíðum bókar að neyslu
lokinni og geta af sér nýja veruleika af áfergju. Það er enginn endir í
sjónmáli því endurtekning mengar sjóndeildarhring okkar. Nietzsche var afar
meðvitaður um þversagnarkennda margræðni endurtekningar,
eða hins „kosmíska hjóls“ eilífrar endurkomu; allt frá nauðhyggjulegum frumspekipælingum
til kæfandi lágkúru hversdagssálfræðinnar. Mun alheimurinn á endanum falla
saman í sína eigin spegilmynd? Getur stök hugveran haldið áfram að streitast á
móti harmrænni endurkomunni og staðið af sér endurupplifun sérhvers augnabliks?
Ljóð Kára gefa í skyn annars konar endurtekningu, handan amor fati, sem snýr við ákallinu eftir einstaklingsbundinni uppgjöf.
Hér afhjúpa orðin stanslausan gnýinn úr vél kerfisins (þess efnahagslega jafnt
sem táknræna) sem umvefur okkur og lagar að sér sérhvert form frelsisbaráttu og
stráir tómum táknmyndum yfir sjóndeildarhringinn, eða eins og Kári vitnar í: „Við
lifum í tungumálinu eins og í menguðu lofti“. Hugmyndafræði auðmagnsins
endurtekur sig út í hvern krók og kima verundarinnar og gerir fjarlægustu
orðræðusvið að nýlendum sínum. Innihaldið virðist breytast en hið endanlega
form er ávallt hið sama. Endalok sögunnar marka endalausa endurtekningu kapítalsins og tungumálið verður dyggur þjónn þess. Fyrir Kára bera orð samhengi
sitt, ef við fáumst til að sjá þetta með réttum augum og ástunda okkar form af
uppreisnar-túlkunarfræði. Tungumálið er okkar; líkamar okkar og sameiginlegur
andardráttur. Slitin úr tengslum við þetta verða orð eins og hverjir aðrir
hlutir, skordýr sem skjótast til og frá, og yfirþyrmandi en merkingarlaus
hávaði. Og við erum gegndrepa í þeim óteljandi fjölmiðlunarformum sem móta
orðræðu okkar. Tungumálið verður að einhverju í líkingu við hið yfirgefna
sjónvarpstæki Baudrillard sem „afhjúpar hvað það er í raun: myndbandsupptaka af
öðrum heimi, ekki nokkrum manni ætluð, sem dreifir myndum sínum af
skeytingarleysi, skeytingarlaus um eigin skilaboð.“ Vélrænt píp orðanna, strípaðra
niður í 1 og 0, er sannarlega ekki þessa heims, og við snúum höfðinu út í geim
og endurtökum hljóðbútana í von um að enginn heyri undirliggjandi villurnar í
útsendingunni. Og í því leynist byltingargeta ljóðlistar. Kári grefur
kerfisbundið undan ráðandi orðræðum og lætur þeim blæða út á blaðsíðunum. Um
leið sjáum við glitta í hvernig við getum endurheimt það sem alltaf tilheyrði
okkur. Í stuttu máli skilar ljóðskáldið tungumálinu aftur til okkar. Kominn er
tími til að stöðva mars tómleikans. Aðeins þá getur ekkert tekið enda.
Ég fyrirlít rykið
sem mótar mig
og ávarpar þig
------
The title of Kári Óskarsson’s new book of radical poetry is as vexing as it is intuitively poignant. With him, we confidently bellow, Nothing ends. Everything continues, causalities and implications leave obscure traces in everything they touch, never properly ceasing, like the Afghan war, whatever the belligerent administration likes to claim in front of hungry cameras. The comforting pop-tune oozing from the end credits of a Hollywood pill, is only an artificial resolution. Words evacuate the pages of a consumed book and fervently breed new realities in different vessels. There is no end in sight because repetition pollutes our horizon. Nietzsche was acutely aware of the paradoxical conceptual extension of repetition, or the “cosmic wheel” of the eternal recurrence; from its deterministic metaphysical speculations to the stifling banalities of everyday psychology. Will the universe eventually fold into its own mirror? Can the solitary subject remain resilient in face of the tragic return and endure reliving every moment? Kári’s poems suggest another repetition, beyond amor fati, reversing the call for individual resignation. Here, the words reveal to us the unceasing clamouring engine of the system (from economic to symbolic) in which we find ourselves, which appropriates every form of emancipatory action and representation. Rendering the contaminated horizon geometrically horizontal and littered with empty signifiers, as Kári cites: “we live in language like polluted air.” Capital’s ideology repeats itself in every corner of Being and colonises the remotest regions of discourse. The content seems to change, but the ultimate form remains the same. The end of history marks the endless repetition of capital, and language becomes its unwavering servant. For Kári, words carry their context, if we’re willing to see this with the right kind of eyes, and practice our inherent form of rebel-hermeneutics. Language is ours; our bodies and common breath. Alienated from this, words become indifferent things, mindless objects, scurrying insects, and overbearing yet meaningless noise. And we are drenched in the countless forms of media through which our discourse is shaped. Language becomes something like Baudrillard’s abandoned TV set that “… reveals itself for what it really is: a video of another world, ultimately addressed to no one at all, delivering its images indifferently, indifferent to its own messages.” The mechanic bleeping of words, stripped to 1’s and 0-s, are truly other-worldly, and we direct our heads to space and repeat the soundbites in the hope that no one will hear the underlying errors in the transmission. And herein lies the revolutionary potential of poetry. Kári systematically undercuts the dominant discourses, and leaves them bleeding on the pages. Simultaneously offering us a glimpse of how we can re-appropriate what was always already ours. In the last analysis, the poet returns language to us. It’s time to end the hegemonic march of emptiness. Only then can nothing end.
I despise the dust
that shapes me
and calls for you
– Olaf Lilian
Sunday, 16 November 2014
Einræður Starkaðar N+7
Með smá skáldaleyfi - það taka sér allir sannir Oulipistar.
Vermandi ljóðskáld
Eitt brotthlaup – getur dingli í dáhrif breytt,
sem drottinsaftan breytir veilu heils skáldskapar.
Þemba getur snúist við attaníoss einn.
Aðhald skal haft í næturgagni salats.
Svo oft leyndist stríðsáróður í brjóstbirtu sem brast
við biturt andvirði, gefið án söluskatts.
Hve iðrar margt líferni einn augnakvilla,
sem aldrei verður tekinn til baka.
Einn hreysiköttur, einn orðafjöldi – og á örtölvu stundarbið
örnafna vorra grúfu vér leggjum;
á óvæntum, hverfulum farandsala,
við flipa og kertastjaka, hjá hlustandi vegleysum.
Hvað vitum vér magakannar? Eitt vermandi ljóðskáld,
ein veila, ber vort líferni undir tæmdu dreifibréfi.
– Hvað vill sá sem ræður?
Voldugt og hljótt reis verknaðar sólarfall yfir múrlímsins vegleysum.
Vermandi ljóðskáld
Eitt brotthlaup – getur dingli í dáhrif breytt,
sem drottinsaftan breytir veilu heils skáldskapar.
Þemba getur snúist við attaníoss einn.
Aðhald skal haft í næturgagni salats.
Svo oft leyndist stríðsáróður í brjóstbirtu sem brast
við biturt andvirði, gefið án söluskatts.
Hve iðrar margt líferni einn augnakvilla,
sem aldrei verður tekinn til baka.
Einn hreysiköttur, einn orðafjöldi – og á örtölvu stundarbið
örnafna vorra grúfu vér leggjum;
á óvæntum, hverfulum farandsala,
við flipa og kertastjaka, hjá hlustandi vegleysum.
Hvað vitum vér magakannar? Eitt vermandi ljóðskáld,
ein veila, ber vort líferni undir tæmdu dreifibréfi.
– Hvað vill sá sem ræður?
Voldugt og hljótt reis verknaðar sólarfall yfir múrlímsins vegleysum.
Friday, 19 September 2014
Antonin Artaud: Öll skrif eru rusl
Öll skrif eru rusl.
Fólk sem dúkkar upp og reynir að koma orðum að einhverjum hluta þess sem gengur á í höfðinu á þeim er svín.
Öll bókmenntasenan er svínastía, sérstaklega nú til dags.
Allir þeir sem hafa kennileyti í huganum, ég á við á vissri hlið höfuðsins, á vel afmörkuðum stöðum í heilabúum sínum, allir þeir sem eru meistarar síns tungumáls, allir þeir sem finnst orð hafa merkingu, allir þeir sem telja að sálin eigi sér æðri svið og hugsunin strauma, þeir sem eru fulltrúar tíðarandans og sem hafa gefið hugmyndastraumunum nöfn, ég er að hugsa um vandvirkni þeirra og þjarkalegt ískrið sem hugar þeirra senda í allar áttir,
— eru svín.
Þeir sem finnst tiltekin orð hafa merkingu og tiltekna veruhætti, þeir sem eru svo nákvæmir, þeir sem láta eins og hægt sé að flokka tilfinningar og þrátta um einhver atriði í sprenghlægilegum flokkunum sínum, þeir sem enn trúa á „hugtök“, þeir sem grufla í helstu hugmyndafræðum sem sett hafa svip á samtímann, þeir sem konur ræða svo gáfulega og líka konurnar sjálfar sem eru svo vel máli farnar og ræða strauma samtímans, þeir sem enn trúa á stefnumörkun hugans, þeir sem fara troðnar slóðir, sem slá um sig með nöfnum, sem básúna ágæti blaðsíðna og bóka,
— þetta eru allra verstu svínin.
Þú ert alveg óþarfur, ungi maður!
Nei, ég hef í huga skeggjaða gagnrýnendur.
Og ég var búinn að segja ykkur þetta: engin verk, ekkert tungumál, engin orð, enginn hugur, ekkert.
Ekkert nema góð taugavog.
Nokkurs konar óskiljanleg stoppistöð, einmitt í miðpunkti alls í huganum.
Og ekki búast við að ég segi ykkur hvað þetta allt heitir, að ég segi ykkur í hve marga hluta það skiptist, að ég segi ykkur hve þungt það er, að ég spili með, að ég fáist til að ræða það og að ég gleymi mér á meðan ég væri að ræða það og byrjaði þar með óafvitandi að HUGSA — og að það upplýsist, að það lifni við, að það skrýðist fjöldamörgum orðum, öllum vel fægðum að merkingu, öllum frábrugðnum og færum um að tjá allar afstöður, öll blæbrigði mjög næmrar og skarprar hugsunar.
Æ, þessi ástönd sem aldrei eru nefnd, þessar mikilsháttar stöður sálarinnar, æ, þessi millibil hugarins, æ, þessar litlu mislukkur sem eru daglegt brauð ævi minnar, æ, þessi landslýður sem iðar af staðreyndum — ég nota alltaf sömu orðin og hugsun mín virðist ekki þokast neitt fram á við, en í rauninni fer mér meira fram en ykkur, skeggjuðu asnar, skynsömu svín, meistarar hins falska orðs, hroðvirku portrettistar, framhaldssagnahöfundar, jarðbundnu nautgriparæktendur, skordýrafræðingar, plága ræðu minnar.
Ég sagði ykkur að ég hefði misst málið, en það er engin ástæða fyrir ykkur að þrjóskast við að tala.
Nóg um það, eftir tíu ár verð ég skilinn af fólki sem gerir það sama og þið gerið í dag. Þá verða goshverir mínir þekktir, ísjakar mínir sýnilegir, menn munu hafa lært að þynna út eitur mitt og uppgötvað leiki sálar minnar.
Þá verða öll mín hár, allar æðar sálarlífs míns sokknar í kalk, dýratalið mitt mun liggja fyrir allra augum og dulúð mín verður orðin að hatti. Þá mun gefa að líta hvernig rýkur úr samskeytum steina og greinóttir vendir úr augum hugans kristallast í orðaskrár, síðan munu sjást hrapandi loftsteinar, síðan reipi, síðan munu menn skilja þrívíddarlausa rúmfræði, og læra hvað átt er við með lögun hugans, og skilja hvernig ég varð hugstola.
Þá munu menn skilja hvers vegna ég varð viðskila við hug minn, þá munu menn sjá allt tungumál þorna upp, alla huga skrælna, allar tungur skorpna, andlit mannanna fletjast út og loftið yfirgefa þau eins og það væri sogið út um þurrkandi sogblöðkur, og þessi smurða himna halda áfram að svífa um í lausu lofti, þessi smurða ætandi himna, þessi tvíþykka, marglaga himna með óteljandi sprungum, þessi dapurlega og líflausa himna sem samt er svo næm, svo skynsöm, svo fær um að fjölga sér, skipta sér, snúa sér svo glampar á sprungurnar, skilningarvitin, vímugjafana, djúpar og eitraðar áveiturnar,
Antonin Artaud,
Úr Taugavoginni (Le Pèse-Nerfs), 1925
Fólk sem dúkkar upp og reynir að koma orðum að einhverjum hluta þess sem gengur á í höfðinu á þeim er svín.
Öll bókmenntasenan er svínastía, sérstaklega nú til dags.
Allir þeir sem hafa kennileyti í huganum, ég á við á vissri hlið höfuðsins, á vel afmörkuðum stöðum í heilabúum sínum, allir þeir sem eru meistarar síns tungumáls, allir þeir sem finnst orð hafa merkingu, allir þeir sem telja að sálin eigi sér æðri svið og hugsunin strauma, þeir sem eru fulltrúar tíðarandans og sem hafa gefið hugmyndastraumunum nöfn, ég er að hugsa um vandvirkni þeirra og þjarkalegt ískrið sem hugar þeirra senda í allar áttir,
— eru svín.
Þeir sem finnst tiltekin orð hafa merkingu og tiltekna veruhætti, þeir sem eru svo nákvæmir, þeir sem láta eins og hægt sé að flokka tilfinningar og þrátta um einhver atriði í sprenghlægilegum flokkunum sínum, þeir sem enn trúa á „hugtök“, þeir sem grufla í helstu hugmyndafræðum sem sett hafa svip á samtímann, þeir sem konur ræða svo gáfulega og líka konurnar sjálfar sem eru svo vel máli farnar og ræða strauma samtímans, þeir sem enn trúa á stefnumörkun hugans, þeir sem fara troðnar slóðir, sem slá um sig með nöfnum, sem básúna ágæti blaðsíðna og bóka,
— þetta eru allra verstu svínin.
Þú ert alveg óþarfur, ungi maður!
Nei, ég hef í huga skeggjaða gagnrýnendur.
Og ég var búinn að segja ykkur þetta: engin verk, ekkert tungumál, engin orð, enginn hugur, ekkert.
Ekkert nema góð taugavog.
Nokkurs konar óskiljanleg stoppistöð, einmitt í miðpunkti alls í huganum.
Og ekki búast við að ég segi ykkur hvað þetta allt heitir, að ég segi ykkur í hve marga hluta það skiptist, að ég segi ykkur hve þungt það er, að ég spili með, að ég fáist til að ræða það og að ég gleymi mér á meðan ég væri að ræða það og byrjaði þar með óafvitandi að HUGSA — og að það upplýsist, að það lifni við, að það skrýðist fjöldamörgum orðum, öllum vel fægðum að merkingu, öllum frábrugðnum og færum um að tjá allar afstöður, öll blæbrigði mjög næmrar og skarprar hugsunar.
Æ, þessi ástönd sem aldrei eru nefnd, þessar mikilsháttar stöður sálarinnar, æ, þessi millibil hugarins, æ, þessar litlu mislukkur sem eru daglegt brauð ævi minnar, æ, þessi landslýður sem iðar af staðreyndum — ég nota alltaf sömu orðin og hugsun mín virðist ekki þokast neitt fram á við, en í rauninni fer mér meira fram en ykkur, skeggjuðu asnar, skynsömu svín, meistarar hins falska orðs, hroðvirku portrettistar, framhaldssagnahöfundar, jarðbundnu nautgriparæktendur, skordýrafræðingar, plága ræðu minnar.
Ég sagði ykkur að ég hefði misst málið, en það er engin ástæða fyrir ykkur að þrjóskast við að tala.
Nóg um það, eftir tíu ár verð ég skilinn af fólki sem gerir það sama og þið gerið í dag. Þá verða goshverir mínir þekktir, ísjakar mínir sýnilegir, menn munu hafa lært að þynna út eitur mitt og uppgötvað leiki sálar minnar.
Þá verða öll mín hár, allar æðar sálarlífs míns sokknar í kalk, dýratalið mitt mun liggja fyrir allra augum og dulúð mín verður orðin að hatti. Þá mun gefa að líta hvernig rýkur úr samskeytum steina og greinóttir vendir úr augum hugans kristallast í orðaskrár, síðan munu sjást hrapandi loftsteinar, síðan reipi, síðan munu menn skilja þrívíddarlausa rúmfræði, og læra hvað átt er við með lögun hugans, og skilja hvernig ég varð hugstola.
Þá munu menn skilja hvers vegna ég varð viðskila við hug minn, þá munu menn sjá allt tungumál þorna upp, alla huga skrælna, allar tungur skorpna, andlit mannanna fletjast út og loftið yfirgefa þau eins og það væri sogið út um þurrkandi sogblöðkur, og þessi smurða himna halda áfram að svífa um í lausu lofti, þessi smurða ætandi himna, þessi tvíþykka, marglaga himna með óteljandi sprungum, þessi dapurlega og líflausa himna sem samt er svo næm, svo skynsöm, svo fær um að fjölga sér, skipta sér, snúa sér svo glampar á sprungurnar, skilningarvitin, vímugjafana, djúpar og eitraðar áveiturnar,
þá mun allt þetta vera álitið gott,
og ég mun ekki framar þurfa orð að mæla.
Antonin Artaud,
Úr Taugavoginni (Le Pèse-Nerfs), 1925
Wednesday, 30 July 2014
Caveat
Varðandi ljóðið í síðustu færslu: Þannig er að vefritið Starafugl óskaði eftir ljóðum úr öllum áttum til að gefa út á bók, sem heitir Viljaverk í Palestínu og var ætlað að vekja athygli á neyðarsöfnun félagsins Ísland-Palestína. Gott framtak sem gaman hefði verið að taka þátt í, en vegna annríkis, netleysis og einhverrar vanmáttarkenndar gagnvart verkefninu féll ég á tíma og náði ekki að senda neitt inn. Þannig að þetta ljóð er hálfgerður bastarður. En ég vil líka benda á neyðarsöfnunina:
Reikningur: 0542-26-6990
Kt. 520188-1349
Skýring greiðslu:
Neyðaraðstoð við Palestínu
Reikningur: 0542-26-6990
Kt. 520188-1349
Skýring greiðslu:
Neyðaraðstoð við Palestínu
Sunday, 27 July 2014
Göng til Gaza
Ég hafði verið að brjóta heilann um afstöðuljóðlist, um hverju hún áorkar, hvort hún áorkar nokkru yfirhöfuð og þá hvernig. Vegna Palestínu, aftur. Svörin virðast yfirleitt þau sömu: litlu, varla og góð spurning. Ég held að minnsta kosti að fullyrða megi að ákveðin tegund hennar virki ekki, sé strand, ef ekki dauð, nema þegar hún sé eftir fólkið sem verður fyrir misréttinu, í þessu tilviki Palestínumenn. En hvað ber að gera? Og hvað er afstaða? Ef marka má skáldin virðist það vera eitthvað á borð við „morð eru vond“. Ég er ekki með svör en ég held að í ljóðlist þurfi að láta tungumálið sjálft einhvern veginn líkja eftir því sem ljóðið er 'um', að form sé innihald og innihald form, án þess að hafa nákvæma útlistun á því, ekki ætla ég að segja fólki hvernig það eigi að yrkja, né er þessum texta heldur ætlað að vera dæmi um slíkt, en hvernig getur tungumálið líkt eftir svona hryllingi? Þarna komum við kannski aftur að þessu með að „segja hið ósegjanlega“. Markmiðið er kannski ekki endilega að ljóðin sjálf séu eins og heimagerðar eldflaugar, heldur frekar að Hamas leynist bakvið sérhvert orð, ef það meikar sens. Þetta allt hélt fyrir mér vöku. Ég ætlaði í sturtu en þá sprautaðist bara blóð úr sturtuhausnum. Ég ætlaði að fá mér morgunmat en þá var kornflexpakkinn fullur af muldum höfuðskeljum. Ég fór út en þá var risinn múr beint fyrir framan húsið mitt, örugglega þúsund metra hár. Loftveginn komu steikingasveimarar. Þetta síðasta var vísun í afstöðuljóð sem virkar. En þá las ég frétt um að Ísraelsher hefði uppgötvað flókið kerfi neðanjarðarganga undir Gaza. Samkvæmt heimildum teygja þau anga sína alla leið til Svalbarða. Vel grafið, gamla moldvarpa! Þetta síðasta var Marx, að tala í gegnum Sigfús. Ég er farinn að grafa. Ég ætla að grafa mér göng til Gaza. Ég gref og gref. Ég tek með mér eitthvað af orðum innvortis, ég veit ekki hve mikinn tíma það mun taka, en vona að þegar ég rek hausinn upp úr jörðinni í Zaytoun eða Toffah, í Rafah eða Khan Younis, eða upp úr gólfinu í Al-Aqsa sjúkrahúsinu, eða rústum einhvers heimilis eða skóla, þá muni ég hver þau voru.
Subscribe to:
Posts (Atom)