Friday, 19 September 2014

Antonin Artaud: Öll skrif eru rusl

Öll skrif eru rusl.
Fólk sem dúkkar upp og reynir að koma orðum að einhverjum hluta þess sem gengur á í höfðinu á þeim er svín.
Öll bókmenntasenan er svínastía, sérstaklega nú til dags.
Allir þeir sem hafa kennileyti í huganum, ég á við á vissri hlið höfuðsins, á vel afmörkuðum stöðum í heilabúum sínum, allir þeir sem eru meistarar síns tungumáls, allir þeir sem finnst orð hafa merkingu, allir þeir sem telja að sálin eigi sér æðri svið og hugsunin strauma, þeir sem eru fulltrúar tíðarandans og sem hafa gefið hugmyndastraumunum nöfn, ég er að hugsa um vandvirkni þeirra og þjarkalegt ískrið sem hugar þeirra senda í allar áttir,
— eru svín.
Þeir sem finnst tiltekin orð hafa merkingu og tiltekna veruhætti, þeir sem eru svo nákvæmir, þeir sem láta eins og hægt sé að flokka tilfinningar og þrátta um einhver atriði í sprenghlægilegum flokkunum sínum, þeir sem enn trúa á „hugtök“, þeir sem grufla í helstu hugmyndafræðum sem sett hafa svip á samtímann, þeir sem konur ræða svo gáfulega og líka konurnar sjálfar sem eru svo vel máli farnar og ræða strauma samtímans, þeir sem enn trúa á stefnumörkun hugans, þeir sem fara troðnar slóðir, sem slá um sig með nöfnum, sem básúna ágæti blaðsíðna og bóka,
— þetta eru allra verstu svínin.
Þú ert alveg óþarfur, ungi maður!
Nei, ég hef í huga skeggjaða gagnrýnendur.
Og ég var búinn að segja ykkur þetta: engin verk, ekkert tungumál, engin orð, enginn hugur, ekkert.
Ekkert nema góð taugavog.
Nokkurs konar óskiljanleg stoppistöð, einmitt í miðpunkti alls í huganum.
Og ekki búast við að ég segi ykkur hvað þetta allt heitir, að ég segi ykkur í hve marga hluta það skiptist, að ég segi ykkur hve þungt það er, að ég spili með, að ég fáist til að ræða það og að ég gleymi mér á meðan ég væri að ræða það og byrjaði þar með óafvitandi að HUGSA — og að það upplýsist, að það lifni við, að það skrýðist fjöldamörgum orðum, öllum vel fægðum að merkingu, öllum frábrugðnum og færum um að tjá allar afstöður, öll blæbrigði mjög næmrar og skarprar hugsunar.
Æ, þessi ástönd sem aldrei eru nefnd, þessar mikilsháttar stöður sálarinnar, æ, þessi millibil hugarins, æ, þessar litlu mislukkur sem eru daglegt brauð ævi minnar, æ, þessi landslýður sem iðar af staðreyndum — ég nota alltaf sömu orðin og hugsun mín virðist ekki þokast neitt fram á við, en í rauninni fer mér meira fram en ykkur, skeggjuðu asnar, skynsömu svín, meistarar hins falska orðs, hroðvirku portrettistar, framhaldssagnahöfundar, jarðbundnu nautgriparæktendur, skordýrafræðingar, plága ræðu minnar.
Ég sagði ykkur að ég hefði misst málið, en það er engin ástæða fyrir ykkur að þrjóskast við að tala.
Nóg um það, eftir tíu ár verð ég skilinn af fólki sem gerir það sama og þið gerið í dag. Þá verða goshverir mínir þekktir, ísjakar mínir sýnilegir, menn munu hafa lært að þynna út eitur mitt og uppgötvað leiki sálar minnar.
Þá verða öll mín hár, allar æðar sálarlífs míns sokknar í kalk, dýratalið mitt mun liggja fyrir allra augum og dulúð mín verður orðin að hatti. Þá mun gefa að líta hvernig rýkur úr samskeytum steina og greinóttir vendir úr augum hugans kristallast í orðaskrár, síðan munu sjást hrapandi loftsteinar, síðan reipi, síðan munu menn skilja þrívíddarlausa rúmfræði, og læra hvað átt er við með lögun hugans, og skilja hvernig ég varð hugstola.
Þá munu menn skilja hvers vegna ég varð viðskila við hug minn, þá munu menn sjá allt tungumál þorna upp, alla huga skrælna, allar tungur skorpna, andlit mannanna fletjast út og loftið yfirgefa þau eins og það væri sogið út um þurrkandi sogblöðkur, og þessi smurða himna halda áfram að svífa um í lausu lofti, þessi smurða ætandi himna, þessi tvíþykka, marglaga himna með óteljandi sprungum, þessi dapurlega og líflausa himna sem samt er svo næm, svo skynsöm, svo fær um að fjölga sér, skipta sér, snúa sér svo glampar á  sprungurnar, skilningarvitin, vímugjafana, djúpar og eitraðar áveiturnar,    

þá mun allt þetta vera álitið gott,
og ég mun ekki framar þurfa orð að mæla.

Antonin Artaud,
Úr Taugavoginni (Le Pèse-Nerfs), 1925



No comments:

Post a Comment