Eftirfarandi texti var ritaður að beiðni tímaritsins Stínu og átti að fylgja með þýðingu minni á ljóðinu Letter on Harmony and Sacrifice eftir Sean Bonney. Þar sem hann virðist einhverra hluta vegna ekki hafa ratað í tímaritið set ég hann hér, vonandi einhverjum til fróðleiks, ásamt tengli á upphaflega gerð ljóðsins:
Um Sean Bonney
Skáldið Sean Bonney er fæddur árið 1969 í Brighton og alinn upp í Norður-Englandi. Hann hefur síðar látið hafa eftir sér að uppvöxturinn þar, á valdatíð Margrétar Thatcher og breska íhaldsflokksins með tilheyrandi atvinnuleysi, fátækt o.s.frv. hafi gert sig pólitískan, en pólitík er óaðskiljanlegur hluti af ljóðlist hans. Sjálfur kallar hann sig byltingarsinnaðan sósíalista. Í upphafi skáldferils síns var hann vanur að koma fram á pönktónleikum í heimabyggð sinni, á milli þess sem hljómsveitirnar stilltu upp búnaði sínum, og reyndi þá að flytja ljóð sín af engu minni krafti en tónlistarmennirnir pönkið. Má heyra þess merki í upplestrum hans allt til þessa dags. Síðar flutti hann til London, þar sem hann hefur búið síðan, og komst þar í kynni við verk breskra framúrstefnumanna, svo sem Tom Raworth og Bob Cobbing. Hann lauk nýverið doktorsritgerð við Birkbeck, University of London, um ljóðlist bandaríska skáldsins Amiri Baraka.
Bonney hefur sent frá sér margar ljóðabækur, m.a. Baudelaire in English (Veer Books, 2007 og 2011) þar sem hann vinnur með frumlegum hætti úr ljóðum Charles Baudelaire, enduryrkir eða „þýðir“ sum kvæða franska skáldsins á ritvél með þeim hætti að textinn fer allur í belg og biðu, tungumálið er skrumskælt og limlest, svo að útkoman verður nokkurs konar myndljóð, á köflum ólæsileg. Fljótt á litið virðast þau því fátt eiga sameiginlegt með ljóðum Baudelaire, en heimspekingurinn Esther Leslie hefur bent á að þau ríma vel við hugmyndir þýska hugsuðarins Walters Benjamin um þýðingar. Í frægri ritgerð sem nefnist „Verkefni þýðandans“ – og var raunar formálinn að þýðingum Benjamins sjálf á ljóðum Baudelaire – heldur hann því fram að góðar þýðingar miðli ekki upplýsingum, heldur einhverjum dularfyllri merkingarauka sem vex út úr frumverkinu, sem þýðandinn veitir framhaldslíf á öðrum tungumálum og öðrum tímum. Einmitt þetta má segja að Bonney geri: ferji anda ljóða Baudelaires yfir til Lundúna í byrjun 21. aldar, t.d. með því að beita ljóðmálið ofbeldi, teygja það þannig að það rúmi „óskáldlegt“ mál og inntak, rétt eins og Baudelaire gerði við franskt ljóðmál á sinni tíð.
Í bókinni Happiness – Poems After Rimbaud (Unkant, 2011), á Bonney í samræðu við Arthur Rimbaud, sérstaklega tengsl hans við Parísarkommúnuna árið 1871. Hann ræðst þar á klisjurnar sem umlykja Rimbaud og lífshlaup hans og bendir á að hann var pólitískt skáld, líkt og venja er að líta á hann í Frakklandi og víðar (og í því sambandi sakar ekki að rifja upp, að Rimbaud var eftirlætisskáld Bertolts Brecht), en sem virðist gjarnan gleymast í hinum enskumælandi heimi. Bókin hefst á tilvitnun í Prosper-Olivier Lissagaray, sem sjálfur tók þátt í Parísarkommúnunni og var einna fyrstur til að rita sögu hennar: „Þeir sem segja fólkinu goðsagnir af byltingarmönnum, þeir sem skemmta sér við tilfinningasamar sögur, eru jafn miklir glæpamenn og landafræðingur sem teiknar röng kort handa sjófarendum.“
Síðustu misseri hefur Bonney einkum ort prósaljóð, eða bréf eins og hann kallar þau, og birt þau jafnóðum á bloggsíðu sinni, abandonedbuildings.blogspot.com. Ljóðið „Letter on Harmony and Sacrifice“, sem kemur hér á prenti í íslenskri þýðingu, birtist fyrst á þeirri bloggsíðu þann 31. janúar 2012, eða rúmu ári áður en Margrét Thatcher féll frá. Með óeirðunum sem koma fyrir í ljóðinu er átt við uppþot þau sem brutust út víða á Englandi í ágúst 2011, í kjölfar þess að ungur maður, Mark Duggan að nafni, var skotinn til bana af lögreglu í hverfinu Tottenham í London.
Kvikmyndin If.... , sem vísað er til í ljóðinu, er frá árinu 1968 (og rataði í sýningar í Háskólabíói fáeinum árum síðar) og fjallar um nokkra nemendur við virðulegan enskan einkaskóla fyrir millistéttardrengi, sem gera vopnaða byltingu í skólanum. Hún þykir fanga vel uppreisnarandann sem lá í loftinu undir lok 7. áratugarins, enda var henni víða tekið sem árás á ríkjandi öfl. Hún telst nú sígild.
Að lokum má geta þess að íslenskum ljóðaunnendum ætti Bonney ekki að vera með öllu ókunnur, hafandi verið gestur á þriðju alþjóðlegu ljóðahátíð Nýhils í Reykjavík árið 2007.
http://abandonedbuildings.blogspot.de/2012/01/letter-on-harmony-and-sacrifice.html
No comments:
Post a Comment