Friday, 15 March 2013

"... alt samneyti okkar við þá verður kvöl."

Árið 1946 skrifaði Halldór Laxness grein um herstöðvarmálið, þar sem segir meðal annars:


"Sá maður sem svikur föðurland sitt hefur sjálfur kosið sér hin ystu myrkur, og það er ekki á annarra manna valdi að refsa honum né fyrirgefa. Hvað sem þessir sölumenn Íslands hafa sér til ágætis að öðru leyti, þá eru nöfn þeirra svartur blettur í sögu þjóðarinnar. Hvort þeir hafa afhent útlendingum Ísland til sjö hundruð ára eða hálfs sjöunda árs, þá er verknaður þeirra í eðli sínu samur. Þeir eru föðurlandssvikarar, saurugir og ósnertanlegir, alt samneyti okkar við þá verður kvöl."

Þegar Laxness er í þessum ham þá minnir hann mig dálítið á suma aðra höfunda sem ég hef mætur á, t.d. José Saramago, sem kallaði yfirstandandi fjármálakreppu efnahagslegan glæp gegn mannkyninu, eða John Berger, sem kallaði nýfrjálshyggjuna efnahagslegan fasisma. Alvöru menn, sem notuðu alvöru orð. Sjálfur er ég laus við þessa rosalegu ættjarðarást, sem svo lengi hvíldi svo þungt á íslenskum vinstrimönnum, en stundum leitar þessi setning á mig: "... alt samneyti okkar við þá verður kvöl." Ég man ekki hvenær ég fór fyrst að gera mér grein fyrir því og viðurkenna það fyrir sjálfum mér, en allt samneyti mitt við allstóran hluta samlanda minna er mér einmitt það: kvöl.  Kannski er ég að hugsa um þetta akkúrat núna vegna þess að Framsóknarflokkurinn mælist nú allra flokka stærstur í skoðanakönnunum, brunandi á flóðbylgju ómengaðs popúlisma og mitt í þeim tíðindum að búið sé að rústa lífríki Lagarfljóts. Til hamingju, Plebba-Ísland, þú rokkar svo feitt. Árangur áfram, ekkert stopp.

3 comments:

  1. Ég hugsa stundum hversu lítið land/þjóð/samfélag þurfi að vera til þess að það bara meiki ekki sens fyrir nýfrjálshyggjuna að standa í öllu þessu stappi og rugli, græðgi og spillingu, það sé hreinlega ekki um nógu mikinn ávinning að ræða. Þúst, 300.000 manns? Er í alvöru hægt að svína svo mikið á svo fáum að það borgi sig fyrir fólk að standa í lýðskrumi, náttúrurústi og fleira? Og svo fer ég að hugsa að fólk græðir á valdastrúktúrum þótt bara sé um tvo einstaklinga að ræða og um það leyti fer yfirleitt að bræða úr höfðinu á mér. Ok þetta var mjög óskiljanlegt, bless bless!

    ReplyDelete
  2. En hver, kæri herra, ætlar að setja mörkin um hvað sé nægilega lítið?

    Er ekki einmitt þá hætt við því að allt verði of smátt fyrir virkjanir og framkvæmdir, græðgi og völd?

    Ég segi ekkert er of smátt! Algjört yfirráð kapítalismans!

    kv.
    lommi kapítalisti

    ReplyDelete
  3. Annars vil ég gera orð drykkjumanns úr flóanum að mínum:

    Þetta eru allt Framsóknarflokkar og Sjálfstæðisflokkurinn er stærsti Framsóknarflokkurinn.

    ReplyDelete