Með smá skáldaleyfi - það taka sér allir sannir Oulipistar.
Vermandi ljóðskáld
Eitt brotthlaup – getur dingli í dáhrif breytt,
sem drottinsaftan breytir veilu heils skáldskapar.
Þemba getur snúist við attaníoss einn.
Aðhald skal haft í næturgagni salats.
Svo oft leyndist stríðsáróður í brjóstbirtu sem brast
við biturt andvirði, gefið án söluskatts.
Hve iðrar margt líferni einn augnakvilla,
sem aldrei verður tekinn til baka.
Einn hreysiköttur, einn orðafjöldi – og á örtölvu stundarbið
örnafna vorra grúfu vér leggjum;
á óvæntum, hverfulum farandsala,
við flipa og kertastjaka, hjá hlustandi vegleysum.
Hvað vitum vér magakannar? Eitt vermandi ljóðskáld,
ein veila, ber vort líferni undir tæmdu dreifibréfi.
– Hvað vill sá sem ræður?
Voldugt og hljótt reis verknaðar sólarfall yfir múrlímsins vegleysum.
Sunday, 16 November 2014
Friday, 19 September 2014
Antonin Artaud: Öll skrif eru rusl
Öll skrif eru rusl.
Fólk sem dúkkar upp og reynir að koma orðum að einhverjum hluta þess sem gengur á í höfðinu á þeim er svín.
Öll bókmenntasenan er svínastía, sérstaklega nú til dags.
Allir þeir sem hafa kennileyti í huganum, ég á við á vissri hlið höfuðsins, á vel afmörkuðum stöðum í heilabúum sínum, allir þeir sem eru meistarar síns tungumáls, allir þeir sem finnst orð hafa merkingu, allir þeir sem telja að sálin eigi sér æðri svið og hugsunin strauma, þeir sem eru fulltrúar tíðarandans og sem hafa gefið hugmyndastraumunum nöfn, ég er að hugsa um vandvirkni þeirra og þjarkalegt ískrið sem hugar þeirra senda í allar áttir,
— eru svín.
Þeir sem finnst tiltekin orð hafa merkingu og tiltekna veruhætti, þeir sem eru svo nákvæmir, þeir sem láta eins og hægt sé að flokka tilfinningar og þrátta um einhver atriði í sprenghlægilegum flokkunum sínum, þeir sem enn trúa á „hugtök“, þeir sem grufla í helstu hugmyndafræðum sem sett hafa svip á samtímann, þeir sem konur ræða svo gáfulega og líka konurnar sjálfar sem eru svo vel máli farnar og ræða strauma samtímans, þeir sem enn trúa á stefnumörkun hugans, þeir sem fara troðnar slóðir, sem slá um sig með nöfnum, sem básúna ágæti blaðsíðna og bóka,
— þetta eru allra verstu svínin.
Þú ert alveg óþarfur, ungi maður!
Nei, ég hef í huga skeggjaða gagnrýnendur.
Og ég var búinn að segja ykkur þetta: engin verk, ekkert tungumál, engin orð, enginn hugur, ekkert.
Ekkert nema góð taugavog.
Nokkurs konar óskiljanleg stoppistöð, einmitt í miðpunkti alls í huganum.
Og ekki búast við að ég segi ykkur hvað þetta allt heitir, að ég segi ykkur í hve marga hluta það skiptist, að ég segi ykkur hve þungt það er, að ég spili með, að ég fáist til að ræða það og að ég gleymi mér á meðan ég væri að ræða það og byrjaði þar með óafvitandi að HUGSA — og að það upplýsist, að það lifni við, að það skrýðist fjöldamörgum orðum, öllum vel fægðum að merkingu, öllum frábrugðnum og færum um að tjá allar afstöður, öll blæbrigði mjög næmrar og skarprar hugsunar.
Æ, þessi ástönd sem aldrei eru nefnd, þessar mikilsháttar stöður sálarinnar, æ, þessi millibil hugarins, æ, þessar litlu mislukkur sem eru daglegt brauð ævi minnar, æ, þessi landslýður sem iðar af staðreyndum — ég nota alltaf sömu orðin og hugsun mín virðist ekki þokast neitt fram á við, en í rauninni fer mér meira fram en ykkur, skeggjuðu asnar, skynsömu svín, meistarar hins falska orðs, hroðvirku portrettistar, framhaldssagnahöfundar, jarðbundnu nautgriparæktendur, skordýrafræðingar, plága ræðu minnar.
Ég sagði ykkur að ég hefði misst málið, en það er engin ástæða fyrir ykkur að þrjóskast við að tala.
Nóg um það, eftir tíu ár verð ég skilinn af fólki sem gerir það sama og þið gerið í dag. Þá verða goshverir mínir þekktir, ísjakar mínir sýnilegir, menn munu hafa lært að þynna út eitur mitt og uppgötvað leiki sálar minnar.
Þá verða öll mín hár, allar æðar sálarlífs míns sokknar í kalk, dýratalið mitt mun liggja fyrir allra augum og dulúð mín verður orðin að hatti. Þá mun gefa að líta hvernig rýkur úr samskeytum steina og greinóttir vendir úr augum hugans kristallast í orðaskrár, síðan munu sjást hrapandi loftsteinar, síðan reipi, síðan munu menn skilja þrívíddarlausa rúmfræði, og læra hvað átt er við með lögun hugans, og skilja hvernig ég varð hugstola.
Þá munu menn skilja hvers vegna ég varð viðskila við hug minn, þá munu menn sjá allt tungumál þorna upp, alla huga skrælna, allar tungur skorpna, andlit mannanna fletjast út og loftið yfirgefa þau eins og það væri sogið út um þurrkandi sogblöðkur, og þessi smurða himna halda áfram að svífa um í lausu lofti, þessi smurða ætandi himna, þessi tvíþykka, marglaga himna með óteljandi sprungum, þessi dapurlega og líflausa himna sem samt er svo næm, svo skynsöm, svo fær um að fjölga sér, skipta sér, snúa sér svo glampar á sprungurnar, skilningarvitin, vímugjafana, djúpar og eitraðar áveiturnar,
Antonin Artaud,
Úr Taugavoginni (Le Pèse-Nerfs), 1925
Fólk sem dúkkar upp og reynir að koma orðum að einhverjum hluta þess sem gengur á í höfðinu á þeim er svín.
Öll bókmenntasenan er svínastía, sérstaklega nú til dags.
Allir þeir sem hafa kennileyti í huganum, ég á við á vissri hlið höfuðsins, á vel afmörkuðum stöðum í heilabúum sínum, allir þeir sem eru meistarar síns tungumáls, allir þeir sem finnst orð hafa merkingu, allir þeir sem telja að sálin eigi sér æðri svið og hugsunin strauma, þeir sem eru fulltrúar tíðarandans og sem hafa gefið hugmyndastraumunum nöfn, ég er að hugsa um vandvirkni þeirra og þjarkalegt ískrið sem hugar þeirra senda í allar áttir,
— eru svín.
Þeir sem finnst tiltekin orð hafa merkingu og tiltekna veruhætti, þeir sem eru svo nákvæmir, þeir sem láta eins og hægt sé að flokka tilfinningar og þrátta um einhver atriði í sprenghlægilegum flokkunum sínum, þeir sem enn trúa á „hugtök“, þeir sem grufla í helstu hugmyndafræðum sem sett hafa svip á samtímann, þeir sem konur ræða svo gáfulega og líka konurnar sjálfar sem eru svo vel máli farnar og ræða strauma samtímans, þeir sem enn trúa á stefnumörkun hugans, þeir sem fara troðnar slóðir, sem slá um sig með nöfnum, sem básúna ágæti blaðsíðna og bóka,
— þetta eru allra verstu svínin.
Þú ert alveg óþarfur, ungi maður!
Nei, ég hef í huga skeggjaða gagnrýnendur.
Og ég var búinn að segja ykkur þetta: engin verk, ekkert tungumál, engin orð, enginn hugur, ekkert.
Ekkert nema góð taugavog.
Nokkurs konar óskiljanleg stoppistöð, einmitt í miðpunkti alls í huganum.
Og ekki búast við að ég segi ykkur hvað þetta allt heitir, að ég segi ykkur í hve marga hluta það skiptist, að ég segi ykkur hve þungt það er, að ég spili með, að ég fáist til að ræða það og að ég gleymi mér á meðan ég væri að ræða það og byrjaði þar með óafvitandi að HUGSA — og að það upplýsist, að það lifni við, að það skrýðist fjöldamörgum orðum, öllum vel fægðum að merkingu, öllum frábrugðnum og færum um að tjá allar afstöður, öll blæbrigði mjög næmrar og skarprar hugsunar.
Æ, þessi ástönd sem aldrei eru nefnd, þessar mikilsháttar stöður sálarinnar, æ, þessi millibil hugarins, æ, þessar litlu mislukkur sem eru daglegt brauð ævi minnar, æ, þessi landslýður sem iðar af staðreyndum — ég nota alltaf sömu orðin og hugsun mín virðist ekki þokast neitt fram á við, en í rauninni fer mér meira fram en ykkur, skeggjuðu asnar, skynsömu svín, meistarar hins falska orðs, hroðvirku portrettistar, framhaldssagnahöfundar, jarðbundnu nautgriparæktendur, skordýrafræðingar, plága ræðu minnar.
Ég sagði ykkur að ég hefði misst málið, en það er engin ástæða fyrir ykkur að þrjóskast við að tala.
Nóg um það, eftir tíu ár verð ég skilinn af fólki sem gerir það sama og þið gerið í dag. Þá verða goshverir mínir þekktir, ísjakar mínir sýnilegir, menn munu hafa lært að þynna út eitur mitt og uppgötvað leiki sálar minnar.
Þá verða öll mín hár, allar æðar sálarlífs míns sokknar í kalk, dýratalið mitt mun liggja fyrir allra augum og dulúð mín verður orðin að hatti. Þá mun gefa að líta hvernig rýkur úr samskeytum steina og greinóttir vendir úr augum hugans kristallast í orðaskrár, síðan munu sjást hrapandi loftsteinar, síðan reipi, síðan munu menn skilja þrívíddarlausa rúmfræði, og læra hvað átt er við með lögun hugans, og skilja hvernig ég varð hugstola.
Þá munu menn skilja hvers vegna ég varð viðskila við hug minn, þá munu menn sjá allt tungumál þorna upp, alla huga skrælna, allar tungur skorpna, andlit mannanna fletjast út og loftið yfirgefa þau eins og það væri sogið út um þurrkandi sogblöðkur, og þessi smurða himna halda áfram að svífa um í lausu lofti, þessi smurða ætandi himna, þessi tvíþykka, marglaga himna með óteljandi sprungum, þessi dapurlega og líflausa himna sem samt er svo næm, svo skynsöm, svo fær um að fjölga sér, skipta sér, snúa sér svo glampar á sprungurnar, skilningarvitin, vímugjafana, djúpar og eitraðar áveiturnar,
þá mun allt þetta vera álitið gott,
og ég mun ekki framar þurfa orð að mæla.
Antonin Artaud,
Úr Taugavoginni (Le Pèse-Nerfs), 1925
Wednesday, 30 July 2014
Caveat
Varðandi ljóðið í síðustu færslu: Þannig er að vefritið Starafugl óskaði eftir ljóðum úr öllum áttum til að gefa út á bók, sem heitir Viljaverk í Palestínu og var ætlað að vekja athygli á neyðarsöfnun félagsins Ísland-Palestína. Gott framtak sem gaman hefði verið að taka þátt í, en vegna annríkis, netleysis og einhverrar vanmáttarkenndar gagnvart verkefninu féll ég á tíma og náði ekki að senda neitt inn. Þannig að þetta ljóð er hálfgerður bastarður. En ég vil líka benda á neyðarsöfnunina:
Reikningur: 0542-26-6990
Kt. 520188-1349
Skýring greiðslu:
Neyðaraðstoð við Palestínu
Reikningur: 0542-26-6990
Kt. 520188-1349
Skýring greiðslu:
Neyðaraðstoð við Palestínu
Sunday, 27 July 2014
Göng til Gaza
Ég hafði verið að brjóta heilann um afstöðuljóðlist, um hverju hún áorkar, hvort hún áorkar nokkru yfirhöfuð og þá hvernig. Vegna Palestínu, aftur. Svörin virðast yfirleitt þau sömu: litlu, varla og góð spurning. Ég held að minnsta kosti að fullyrða megi að ákveðin tegund hennar virki ekki, sé strand, ef ekki dauð, nema þegar hún sé eftir fólkið sem verður fyrir misréttinu, í þessu tilviki Palestínumenn. En hvað ber að gera? Og hvað er afstaða? Ef marka má skáldin virðist það vera eitthvað á borð við „morð eru vond“. Ég er ekki með svör en ég held að í ljóðlist þurfi að láta tungumálið sjálft einhvern veginn líkja eftir því sem ljóðið er 'um', að form sé innihald og innihald form, án þess að hafa nákvæma útlistun á því, ekki ætla ég að segja fólki hvernig það eigi að yrkja, né er þessum texta heldur ætlað að vera dæmi um slíkt, en hvernig getur tungumálið líkt eftir svona hryllingi? Þarna komum við kannski aftur að þessu með að „segja hið ósegjanlega“. Markmiðið er kannski ekki endilega að ljóðin sjálf séu eins og heimagerðar eldflaugar, heldur frekar að Hamas leynist bakvið sérhvert orð, ef það meikar sens. Þetta allt hélt fyrir mér vöku. Ég ætlaði í sturtu en þá sprautaðist bara blóð úr sturtuhausnum. Ég ætlaði að fá mér morgunmat en þá var kornflexpakkinn fullur af muldum höfuðskeljum. Ég fór út en þá var risinn múr beint fyrir framan húsið mitt, örugglega þúsund metra hár. Loftveginn komu steikingasveimarar. Þetta síðasta var vísun í afstöðuljóð sem virkar. En þá las ég frétt um að Ísraelsher hefði uppgötvað flókið kerfi neðanjarðarganga undir Gaza. Samkvæmt heimildum teygja þau anga sína alla leið til Svalbarða. Vel grafið, gamla moldvarpa! Þetta síðasta var Marx, að tala í gegnum Sigfús. Ég er farinn að grafa. Ég ætla að grafa mér göng til Gaza. Ég gref og gref. Ég tek með mér eitthvað af orðum innvortis, ég veit ekki hve mikinn tíma það mun taka, en vona að þegar ég rek hausinn upp úr jörðinni í Zaytoun eða Toffah, í Rafah eða Khan Younis, eða upp úr gólfinu í Al-Aqsa sjúkrahúsinu, eða rústum einhvers heimilis eða skóla, þá muni ég hver þau voru.
Tuesday, 8 July 2014
Sternberg: Úr Þunglyndisljóðum
allt
verður bara verra
maður
getur leyft sér
að
vona
en
allt
verður bara verra
sama
hvað ég geri
veldur
útkoman
vonbrigðum
***
þetta er bratti
að klifra upp í mót
krefst mikillar áreynslu
og allir sem reyna
hrapa
eftir svolitla stund
niður
***
***
ég veit ekki
hvort aðrir
vita
hvenær
afturförin hófst
eins og steinn í skónum
bara að ég ætti
skó sem rúmuðu stein
það eru stór
göt í öllu
***
það er engin leið að segja
hversu
lengi
þetta
kemur
til
með að vara
ég
get bara fullyrt
að
það mun ekki skána
***
þegar við ekki erum
jörðuð hvort í annars örmum
stöndum við alveg kyrr
við hlið hvors annars
líkami minn er duftker
líkami þinn er duftker
skiljanlega eigum við ekki mök
***
hvernig
hnignun
hvers og eins
mun þróast
má lesa
í andlitinu
meira og meira
sinnuleysi í svipnum
þannig
að færri og færri
athafnir
eiga sér stað
***
***
ég reyni
að læra eitthvað nýtt
en það eina sem gerist
er að ég uppgötva
hve mikið
ég misskildi í gær
***
ég tala ekki
eins og þú lest mig
ég tala hægt
og þegar einhver
spyr mig
um eitthvað
svara ég bara
með einsatkvæðisorðum
***
við verðum
lélegri og lélegri
í öllu
færri og færri
geta munað
betri tíð
maður gæti haldið
að það gæti líka talist
af hinu góða
ekki sífellt
að hugsa um
að allt var betra áður fyrr
en það er alltaf
einhver sem grætur
og það minnir mann á
að það er sorglegt
***
allt verður
meira og meira virði
en
virðið sem það eykst að
verður
minna og minna virði
***
***
enginn heldur bókhald
enginn úthlutar nöfnum
enginn ómakar sig
við að greina
***
***
Að kalla þessa tíma
erfiða
gerir það léttara
því
maður hugsar
að það vari ekki að eilífu
að það sé ekki
manns eigin sök
Saturday, 19 April 2014
Um Sean Bonney
Eftirfarandi texti var ritaður að beiðni tímaritsins Stínu og átti að fylgja með þýðingu minni á ljóðinu Letter on Harmony and Sacrifice eftir Sean Bonney. Þar sem hann virðist einhverra hluta vegna ekki hafa ratað í tímaritið set ég hann hér, vonandi einhverjum til fróðleiks, ásamt tengli á upphaflega gerð ljóðsins:
Um Sean Bonney
Skáldið Sean Bonney er fæddur árið 1969 í Brighton og alinn upp í Norður-Englandi. Hann hefur síðar látið hafa eftir sér að uppvöxturinn þar, á valdatíð Margrétar Thatcher og breska íhaldsflokksins með tilheyrandi atvinnuleysi, fátækt o.s.frv. hafi gert sig pólitískan, en pólitík er óaðskiljanlegur hluti af ljóðlist hans. Sjálfur kallar hann sig byltingarsinnaðan sósíalista. Í upphafi skáldferils síns var hann vanur að koma fram á pönktónleikum í heimabyggð sinni, á milli þess sem hljómsveitirnar stilltu upp búnaði sínum, og reyndi þá að flytja ljóð sín af engu minni krafti en tónlistarmennirnir pönkið. Má heyra þess merki í upplestrum hans allt til þessa dags. Síðar flutti hann til London, þar sem hann hefur búið síðan, og komst þar í kynni við verk breskra framúrstefnumanna, svo sem Tom Raworth og Bob Cobbing. Hann lauk nýverið doktorsritgerð við Birkbeck, University of London, um ljóðlist bandaríska skáldsins Amiri Baraka.
Bonney hefur sent frá sér margar ljóðabækur, m.a. Baudelaire in English (Veer Books, 2007 og 2011) þar sem hann vinnur með frumlegum hætti úr ljóðum Charles Baudelaire, enduryrkir eða „þýðir“ sum kvæða franska skáldsins á ritvél með þeim hætti að textinn fer allur í belg og biðu, tungumálið er skrumskælt og limlest, svo að útkoman verður nokkurs konar myndljóð, á köflum ólæsileg. Fljótt á litið virðast þau því fátt eiga sameiginlegt með ljóðum Baudelaire, en heimspekingurinn Esther Leslie hefur bent á að þau ríma vel við hugmyndir þýska hugsuðarins Walters Benjamin um þýðingar. Í frægri ritgerð sem nefnist „Verkefni þýðandans“ – og var raunar formálinn að þýðingum Benjamins sjálf á ljóðum Baudelaire – heldur hann því fram að góðar þýðingar miðli ekki upplýsingum, heldur einhverjum dularfyllri merkingarauka sem vex út úr frumverkinu, sem þýðandinn veitir framhaldslíf á öðrum tungumálum og öðrum tímum. Einmitt þetta má segja að Bonney geri: ferji anda ljóða Baudelaires yfir til Lundúna í byrjun 21. aldar, t.d. með því að beita ljóðmálið ofbeldi, teygja það þannig að það rúmi „óskáldlegt“ mál og inntak, rétt eins og Baudelaire gerði við franskt ljóðmál á sinni tíð.
Í bókinni Happiness – Poems After Rimbaud (Unkant, 2011), á Bonney í samræðu við Arthur Rimbaud, sérstaklega tengsl hans við Parísarkommúnuna árið 1871. Hann ræðst þar á klisjurnar sem umlykja Rimbaud og lífshlaup hans og bendir á að hann var pólitískt skáld, líkt og venja er að líta á hann í Frakklandi og víðar (og í því sambandi sakar ekki að rifja upp, að Rimbaud var eftirlætisskáld Bertolts Brecht), en sem virðist gjarnan gleymast í hinum enskumælandi heimi. Bókin hefst á tilvitnun í Prosper-Olivier Lissagaray, sem sjálfur tók þátt í Parísarkommúnunni og var einna fyrstur til að rita sögu hennar: „Þeir sem segja fólkinu goðsagnir af byltingarmönnum, þeir sem skemmta sér við tilfinningasamar sögur, eru jafn miklir glæpamenn og landafræðingur sem teiknar röng kort handa sjófarendum.“
Síðustu misseri hefur Bonney einkum ort prósaljóð, eða bréf eins og hann kallar þau, og birt þau jafnóðum á bloggsíðu sinni, abandonedbuildings.blogspot.com. Ljóðið „Letter on Harmony and Sacrifice“, sem kemur hér á prenti í íslenskri þýðingu, birtist fyrst á þeirri bloggsíðu þann 31. janúar 2012, eða rúmu ári áður en Margrét Thatcher féll frá. Með óeirðunum sem koma fyrir í ljóðinu er átt við uppþot þau sem brutust út víða á Englandi í ágúst 2011, í kjölfar þess að ungur maður, Mark Duggan að nafni, var skotinn til bana af lögreglu í hverfinu Tottenham í London.
Kvikmyndin If.... , sem vísað er til í ljóðinu, er frá árinu 1968 (og rataði í sýningar í Háskólabíói fáeinum árum síðar) og fjallar um nokkra nemendur við virðulegan enskan einkaskóla fyrir millistéttardrengi, sem gera vopnaða byltingu í skólanum. Hún þykir fanga vel uppreisnarandann sem lá í loftinu undir lok 7. áratugarins, enda var henni víða tekið sem árás á ríkjandi öfl. Hún telst nú sígild.
Að lokum má geta þess að íslenskum ljóðaunnendum ætti Bonney ekki að vera með öllu ókunnur, hafandi verið gestur á þriðju alþjóðlegu ljóðahátíð Nýhils í Reykjavík árið 2007.
http://abandonedbuildings.blogspot.de/2012/01/letter-on-harmony-and-sacrifice.html
Um Sean Bonney
Skáldið Sean Bonney er fæddur árið 1969 í Brighton og alinn upp í Norður-Englandi. Hann hefur síðar látið hafa eftir sér að uppvöxturinn þar, á valdatíð Margrétar Thatcher og breska íhaldsflokksins með tilheyrandi atvinnuleysi, fátækt o.s.frv. hafi gert sig pólitískan, en pólitík er óaðskiljanlegur hluti af ljóðlist hans. Sjálfur kallar hann sig byltingarsinnaðan sósíalista. Í upphafi skáldferils síns var hann vanur að koma fram á pönktónleikum í heimabyggð sinni, á milli þess sem hljómsveitirnar stilltu upp búnaði sínum, og reyndi þá að flytja ljóð sín af engu minni krafti en tónlistarmennirnir pönkið. Má heyra þess merki í upplestrum hans allt til þessa dags. Síðar flutti hann til London, þar sem hann hefur búið síðan, og komst þar í kynni við verk breskra framúrstefnumanna, svo sem Tom Raworth og Bob Cobbing. Hann lauk nýverið doktorsritgerð við Birkbeck, University of London, um ljóðlist bandaríska skáldsins Amiri Baraka.
Bonney hefur sent frá sér margar ljóðabækur, m.a. Baudelaire in English (Veer Books, 2007 og 2011) þar sem hann vinnur með frumlegum hætti úr ljóðum Charles Baudelaire, enduryrkir eða „þýðir“ sum kvæða franska skáldsins á ritvél með þeim hætti að textinn fer allur í belg og biðu, tungumálið er skrumskælt og limlest, svo að útkoman verður nokkurs konar myndljóð, á köflum ólæsileg. Fljótt á litið virðast þau því fátt eiga sameiginlegt með ljóðum Baudelaire, en heimspekingurinn Esther Leslie hefur bent á að þau ríma vel við hugmyndir þýska hugsuðarins Walters Benjamin um þýðingar. Í frægri ritgerð sem nefnist „Verkefni þýðandans“ – og var raunar formálinn að þýðingum Benjamins sjálf á ljóðum Baudelaire – heldur hann því fram að góðar þýðingar miðli ekki upplýsingum, heldur einhverjum dularfyllri merkingarauka sem vex út úr frumverkinu, sem þýðandinn veitir framhaldslíf á öðrum tungumálum og öðrum tímum. Einmitt þetta má segja að Bonney geri: ferji anda ljóða Baudelaires yfir til Lundúna í byrjun 21. aldar, t.d. með því að beita ljóðmálið ofbeldi, teygja það þannig að það rúmi „óskáldlegt“ mál og inntak, rétt eins og Baudelaire gerði við franskt ljóðmál á sinni tíð.
Í bókinni Happiness – Poems After Rimbaud (Unkant, 2011), á Bonney í samræðu við Arthur Rimbaud, sérstaklega tengsl hans við Parísarkommúnuna árið 1871. Hann ræðst þar á klisjurnar sem umlykja Rimbaud og lífshlaup hans og bendir á að hann var pólitískt skáld, líkt og venja er að líta á hann í Frakklandi og víðar (og í því sambandi sakar ekki að rifja upp, að Rimbaud var eftirlætisskáld Bertolts Brecht), en sem virðist gjarnan gleymast í hinum enskumælandi heimi. Bókin hefst á tilvitnun í Prosper-Olivier Lissagaray, sem sjálfur tók þátt í Parísarkommúnunni og var einna fyrstur til að rita sögu hennar: „Þeir sem segja fólkinu goðsagnir af byltingarmönnum, þeir sem skemmta sér við tilfinningasamar sögur, eru jafn miklir glæpamenn og landafræðingur sem teiknar röng kort handa sjófarendum.“
Síðustu misseri hefur Bonney einkum ort prósaljóð, eða bréf eins og hann kallar þau, og birt þau jafnóðum á bloggsíðu sinni, abandonedbuildings.blogspot.com. Ljóðið „Letter on Harmony and Sacrifice“, sem kemur hér á prenti í íslenskri þýðingu, birtist fyrst á þeirri bloggsíðu þann 31. janúar 2012, eða rúmu ári áður en Margrét Thatcher féll frá. Með óeirðunum sem koma fyrir í ljóðinu er átt við uppþot þau sem brutust út víða á Englandi í ágúst 2011, í kjölfar þess að ungur maður, Mark Duggan að nafni, var skotinn til bana af lögreglu í hverfinu Tottenham í London.
Kvikmyndin If.... , sem vísað er til í ljóðinu, er frá árinu 1968 (og rataði í sýningar í Háskólabíói fáeinum árum síðar) og fjallar um nokkra nemendur við virðulegan enskan einkaskóla fyrir millistéttardrengi, sem gera vopnaða byltingu í skólanum. Hún þykir fanga vel uppreisnarandann sem lá í loftinu undir lok 7. áratugarins, enda var henni víða tekið sem árás á ríkjandi öfl. Hún telst nú sígild.
Að lokum má geta þess að íslenskum ljóðaunnendum ætti Bonney ekki að vera með öllu ókunnur, hafandi verið gestur á þriðju alþjóðlegu ljóðahátíð Nýhils í Reykjavík árið 2007.
http://abandonedbuildings.blogspot.de/2012/01/letter-on-harmony-and-sacrifice.html
Subscribe to:
Posts (Atom)